María Péturs í Vestmannaeyjum er mikill fagurkeri og elskar kalkmálningu. Það sem heillar hana við kalkmálninguna er hlýlega, grófa útlitið og almött áferðin sem fer svo vel við fínlegri hluti, fallega hönnunarmuni og gömul uppgerð húsgögn. Það er einmitt þessi blanda sem gerir stílinn hennar persónulegan og heimilið skemmtilega öðruvísi – en alltaf smekklegt. Kraftaverkakonan María er sífellt að og hefur tekið allt húsið sitt (og garðinn) í gegn. Sjálf hefur hún málað heilu herbergin með kalkmálningu en líka allra handa húsgögn, arin, spegla, leikföng og aðra smámuni. Hún er eiginlega orðinn sérfræðingur í meðhöndlun þessa magnaða efnis og blandar jafnvel litum til að fá fram ólíka „effekta“.

Á myndunum er gamalt barnarúm sem María gerði nýverið upp með kalkmálningunni okkar (takið líka eftir kalkmáluðum veggjum og smáhlutum). Við mælum yfirleitt með að strjúka bývaxi yfir kalkmálaða fleti þar sem búast má við fituálagi en í svona tilfelli er best að loka fletinum alveg með sérstöku glæru lakki (sealer) frá okkur. Því þó kalkmálning sé einhver umhverfisvænsti kosturinn í málningu viljum við ekki að blessuð börnin nagi hana af.

Eins og sjá má hefur María uppgötvað að galdurinn á bak við fullkominn kalkmálaðan flöt er eiginlega að hafa hann fremur ófullkominn. Maður verður bara nánast að mála eins og fimm ára barn! Það þarf nefnilega að gleyma ýmsum vinnureglum í meðferð plastmálningar, t.d. um að mála alltaf í sömu átt eða almennt að vanda sig. Það er fínt að vera svolítið villtur við verkið því alltaf má skella slettu á hér og þar eftir á til að fá meira líf í flötinn.

Svona mælum við með að húsgögn séu kalkmáluð: https://serefni.is/ad-kalkmala-husgogn/