Kalkmálning

Saga kalkefna í húsamálun

Vinsældir kalkefna í húsamálun hafa vaxið ört í mið- og norðurhluta Evrópu síðastliðin ár. Sérefni hófu að kynna þennan fallega og skemmtilega valkost fyrir Íslendingum og hafa um árabil flutt inn ítalska kalkmálningu og marmaraspartl. Boðið er upp á mikið litaúrval og leiðbeiningar um notkun.

Í gegnum aldirnar hafa hús og hýbýli í Suður-Evrópu verið máluð með kalki, bæði innandyra sem utan. Á tímum Endurreisnarinnar máluðu listamennirnir Raphael og Michaelangelo sínar ódauðlegu freskur á veggi með kalkmálningu og enn þann dag í dag má njóta litfegurðar þessara verka þó aldir hafi liðið.

Mismunandi afbrigði af kalkmálningu hafa þróast með því að blanda marmarasalla, jurtum og náttúrulegum litarefnum út í kalkið. Þannig fengust með tíð og tíma betri gæði og ólík blæbrigði í áferð og litum. Kalkmálningin er almött og dýptin í litunum algjörlega einstök og sérlega falleg. Litavalið byggist fyrst og fremst á jarðefnalitum, enda er kalkið jarðefni og eitt af elstu og endingarbestu byggingarefnunum. Litbrigðin í málningunni eru breytileg og stjórnast af birtuskilyrðum og lýsingu. Þegar litir eru valdir, þarf að hafa liti í nánasta umhverfi í huga, svo sem á húsgögnum, málverkum og innréttingum. Kalkefnin henta tvímælalaust bæði með antík- og nútímahúsgögnum og innréttingum því segja má að þau séu tímalaus.

Tvær gerðir kalkefna

Kalkefnin eru umhverfisvænar afurðir og stuðla að heilnæmu andrúmslofti þar sem þau innihalda hvorki plast- né rotvarnarefni, enda byggja þau á ævagömlum vinnsluaðferðum sem komu fram löngu fyrir tíma plast- og iðnaðarefna. Kalkefnunum okkar má skipta í tvo meginflokka; kalkmálningu og kalksparsl. Báðar tegundir eru hrein náttúruefni og lituð með náttúrulegum litarefnum. Kalkmálning er máluð á veggi líkt og plastmálning nema með stórum pensli til að fá þessa fallegu, lifandi áferð. Kalkspartl er til í fjölda útgáfa og eru Stucco, Granito og Crustal helstar. Áferð og útlit er misgróft og má leika sér á ýmsa vegu með efnin til að fá þá niðurstöðu sem sóst er eftir. Kalkspartlið má nota víða, t.d. á gólf, veggi og í votrými og fer vinnsluaðferðin eftir notkunarsvæði. Kalk er mjög basískt efni og því þrífst ekki í því mygla og sveppur. Efnin henta því vel í rökum rýmum.

Í verslun okkar eru hönnunarbækur og litakort sem sýna áferð, liti og notkun á kalkefnunum. Athugið að tölvuskjáir sýna ekki fyllilega rétt blæbrigði lita og því gott að tryggja með aðstoð starfsfólksins í verslun að liturinn henti vel. Tæknilegar upplýsingar er einnig hægt að nálgast hjá birgjunum á www.arteconstructo.be og http://www.stoopen-meeus.com/?lang=en

Litakort

Kalkmálning – litakort

Marmaraspartl – litakort

Um noktun kalkmálningar

Grunnað

Áður en málað er með kalkmálningu þarf ætíð að grunna með sérstökum kalkgrunni. Þetta er gert til að kalkmálningin loði betur við og auðveldara sé að bera hana á flötinn. Kalkgrunnurinn er borinn á með rúllu eða pensli og má draga vel úr honum. Við nýmálun á spartl verður að metta spartlið með grunninum og er þá efnisnotkun meiri. Ekki þarf að grunna ef mála á ómeðhöndlaðan stein eða áður kalkmálaðan flöt. Lítrinn af kalkgrunni þekur 12-14 fermetra. Látið grunninn þorna í um 4 klst. áður en málað er með kalkmálningunni.

Kalkmálað

  • Breiðið vel undir flötinn því hætt er við að efni slettist við kalkmálun.
  • Forðist að skera sérstaklega að ómáluðum fleti því það gefur ólíka áferð. Notið  málningarlímband og vinnið kalkið beint út frá því.
  • Kalkmálningin er borin á með stórum pensli eða þar til gerðum kalkpensli. Málið upp og niður eða takið flötinn langsum í stuttum eða löngum strokum (t.d. 60-100 cm). Einnig má krossa flötinn á handahófskenndan hátt; allt eftir því hvaða áferð verið er að sækjast eftir. Þrýstingur á pensilinn skiptir máli því ólík áferð fæst með léttum strokum og þéttum. Þynna má kalkmálningu til að léttara sé að bera hana á (allt að 50%). Dökk kalkmálning er oft svolítið þykkari en ljós vegna hærra hlutfalls litarefna. Mikilvægt er að mála allan flötinn í einu; ekki stoppa fyrr en hann hefur allur verið málaður.
  • Látið þorna í um 12 klst. milli umferða. Lítrinn af kalkmálningu dugir á 6-8 fermetra.

Málað yfir kalkmálningu

Það er lítið mál að breyta yfir í plastmálningu seinna meir. Ef kalkmálningin er grófmáluð eða laus í sér skal pússa þá fleti með sandpappír nr. 220 og grunna síðan yfir með Professional Microdispers bindigrunni frá Nordsjö – það er mjög fljótlegt. Þá er flöturinn tilbúinn undir „venjulega“ innimálningu. Hið sama gildir ef yfirborðið er vaxvarið – en þá þarf grófari sandpappír, t.d. nr. 80-100.

Listræn útkoma

Munið að það er engin rétt eða röng áferð á kalkvegg. Útkoman getur orðið mismunandi eftir litum þegar unnið er með náttúruefni, t.d. sjást pensilförin meira í dýpri litum. Málun þarf síðan ekkert endilega að vera lokið að fullu eftir tvær umferðir. Algengt er að menn taki strokur hér og þar til að ná fram rétta útlitinu, jafnvel nokkrum sinnum á mismunandi tímum. Málið er bara að vera afslappaður og skapandi þar til maður er ánægður. Hægt er að finna fullt af myndum og myndböndum sem sýna verklagið með því að slá inn leitarorðin „How to apply lime paint“ eða „How to decorate with lime paint“. HÉR er t.d. eitt þar sem Corical kalkmálningin okkar er notuð.

Karfa

0
image/svg+xml

No products in the cart.

Continue Shopping