Kalkmálning

10Saga kalkefna í húsamálun

Vinsældir kalkefna í húsamálun hafa vaxið ört í mið- og norðurhluta Evrópu síðastliðin ár. Sérefni hófu að kynna þennan fallega og skemmtilega valkost fyrir Íslendingum og hafa um árabil flutt inn ítalska kalkmálningu og marmaraspartl. Boðið er upp á mikið litaúrval og leiðbeiningar um notkun.

Í gegnum aldirnar hafa hús og hýbýli í Suður-Evrópu verið máluð með kalki, bæði innandyra sem utan. Á tímum Endurreisnarinnar máluðu listamennirnir Raphael og Michaelangelo sínar ódauðlegu freskur á veggi með kalkmálningu og enn þann dag í dag má njóta litfegurðar þessara verka þó aldir hafi liðið.

Mismunandi afbrigði af kalkmálningu hafa þróast með því að blanda marmarasalla, jurtum og náttúrulegum litarefnum út í kalkið. Þannig fengust með tíð og tíma betri gæði og ólík blæbrigði í áferð og litum. Kalkmálningin er almött og dýptin í litunum algjörlega einstök og sérlega falleg. Litavalið byggist fyrst og fremst á jarðefnalitum, enda er kalkið jarðefni og eitt af elstu og endingarbestu byggingarefnunum. Litbrigðin í málningunni eru breytileg og stjórnast af birtuskilyrðum og lýsingu. Þegar litir eru valdir, þarf að hafa liti í nánasta umhverfi í huga, svo sem á húsgögnum, málverkum og innréttingum. Kalkefnin henta tvímælalaust bæði með antík- og nútímahúsgögnum og innréttingum því segja má að þau séu tímalaus.

 

Tvær gerðir kalkefna

Kalkefnin eru umhverfisvænar afurðir og stuðla að heilnæmu andrúmslofti þar sem þau innihalda hvorki plast- né rotvarnarefni, enda byggja þau á ævagömlum vinnsluaðferðum sem komu fram löngu fyrir tíma plast- og iðnaðarefna. Kalkefnunum okkar má skipta í tvo meginflokka; kalkmálningu og kalksparsl. Báðar tegundir eru hrein náttúruefni og lituð með náttúrulegum litarefnum. Kalkmálning er máluð á veggi líkt og plastmálning nema með stórum pensli til að fá þessa fallegu, lifandi áferð. Kalkspartl er til í fjölda útgáfa og eru Stucco, Granito og Crustal helstar. Áferð og útlit er misgróft og má leika sér á ýmsa vegu með efnin til að fá þá niðurstöðu sem sóst er eftir. Kalkspartlið má nota víða, t.d. á gólf, veggi og í votrými og fer vinnsluaðferðin eftir notkunarsvæði. Kalk er mjög basískt efni og því þrífst ekki í því mygla og sveppur. Efnin henta því vel í rökum rýmum.

Í verslun okkar eru hönnunarbækur og litakort sem sýna áferð, liti og notkun á kalkefnunum. Athugið að tölvuskjáir sýna ekki fyllilega rétt blæbrigði lita og því gott að tryggja með aðstoð starfsfólksins í verslun að liturinn henti vel. Tæknilegar upplýsingar er einnig hægt að nálgast hjá birgjunum á www.arteconstructo.be og http://www.stoopen-meeus.com/?lang=en