Að mála þök
Járn og klæðningar
Efni
Intertuf 203 viðloðunar- og ryðvarnargrunnurinn er alhliða grunnur fyrir málma og klæðningar. Hann er vínylbundinn og sápast ekki á alkalísku galvanundirlagi. Intertuf 203 inniheldur míkró-álflögur sem þétta og styrkja málningarfilmuna gegn tæringu.
ONE Super Tech er vatnsþynnanleg akrýlmálning með góða gljá- og litheldni. ONE Super Tech er sjálfhreinsandi og hentar afar vel í ný- og endurmálun á litaðar klæðningar, grunnmálað bárujárn og steinsteypta fleti utanhúss. Vegna einstakra eiginleika málningarinnar, sem byggir á nanó-tækni, helst hinn málaði flötur hreinn þar sem regnvatn tekur með sér óhreinindi af honum.
Bæði þessi efni eru hraðþornandi og henta því vel íslenskum aðstæðum.
Aðferð
Undirbúningur skiptir öllu máli þegar mála skal þak. Hrærið vel í málningarfötunni áður en málað er. Ekki mála ef sól skín beint á flötinn eða ef hætta er á rigningu eða daggarmyndun næstu klukkustundirnar eftir málun.
- Fjarlægið alla lausa málningu með kröftugri háþrýstidælu (um 400 bör).
- Hreinsið allt ryð af með vírbursta eða sambærilegum verkfærum.
- Hreinsa þarf olíu, fitu og umferðarsót af fletinum með Nordsjö Målartvätt hreinsi og háþrýstiþvotti. Blandið Målartvätt með allt að 20 hlutum vatns móti 1 hlut hreinsiefnisins. Fyrir mjög óhreina fleti skal blanda vatni í hlutfallinu 10:1. Setjið blönduna á með úðabrúsa eða bursta. Látið hana liggja á fletinum í nokkrar mínútur. Sprautið af með háþrýstidælu (150-200 bör) og látið þakið þorna vel.
- Blettið tvisvar í ryðblettina með Intertuf 203.
- Heilgrunnið allan flötinn með einni umferð af Intertuf 203. Þynna má grunninn um 5-10% með GTA007 þynni. Látið grunninn þorna í u.þ.b. 10 klst. (miðað við 10°C) áður en málað er yfir. Æskilegt er að mála yfir grunninn innan sjö daga. Tryggið að þakið sé hreint áður en málað er yfir grunninn.
- Málið tvær umferðir af ONE Super Tech. Biðtími milli umferða er u.þ.b. 2 klst. miðað við 10°C. Rakastig skal vera undir 80% og hitastig járnsins verður að vera a.m.k. 3°C yfir daggarmarki.
ATH: Ef um bárujárnsþak er að ræða er góð þumalfingursregla að bæta 25% við fermetratöluna í efnisútreikningum vegna bárunnar.
*Nákvæmari upplýsingar um efnin má finna í tækniblöðum.
Heilsufars- og umhverfismál
Ekki láta málningardósina standa opna meðan á verki stendur. Þrífið verkfæri strax eftir notkun. Athugið að kviknað getur í olíublautum tuskum og tvisti af sjálfu sér og verður að bleyta þær með vatni áður en þeim er hent á öruggan stað. Hellið ekki málningar- og hreinsiefnaleifum í niðurföll. Skilið efnaleifum og tómum umbúðum til endurvinnslustöðva.
Tæknilegar upplýsingar
INTERTUF 203 – grunnur
Til notkunar: Utanhúss
Litur: Ál, kopar og svart
Þynning: International GTA007
Verkfæri: Rúlla, pensill eða sprauta
Þurrktími: 10 klst við 10°C
Yfirmálun: 10 klst – 7dagar við 10°C
Þekja: 6-8 m2/l
Hreinsun: International GTA007
ONE SUPER TECH – akrýlmálning
Til notkunar: Utanhúss
Gljástig: 30
Litur: Ýmsir
Þynning: Vatn
Verkfæri: Rúlla, pensill eða sprauta
Hiti við málun: Minnst +5°C, mest +25°C
Þurrktími: 1 klst við 10°C
Yfirmálun: 2 klst við 10°C
Þekja nýmálun: 4-6 m2/l
Þekja endurmálun: 6-8 m2/l
Hreinsun: Sápuvatn