fbpx

Um Sérefni

Sérefni ehf. voru stofnuð í apríl 2006 og tóku þá yfir sölu og ráðgjöf á International skipa-, smábáta-, eldvarnar- og iðnaðarmálningu frá Hörpu Sjöfn. International er stærsti framleiðandi heims í skipa- og iðnaðarmálningu og leiðandi í þróun í þeim geira. Fljótlega keyptu Sérefni umboðið á Nordsjö húsamálningu, sem landsmenn þekkja vel enda hefur vörumerkið verið á íslenskum markaði í meira en hálfa öld. Nordsjö málningin skiptist í inni- og útimálningu, viðarvörn, spörtl og lökk og er stór hluti efnanna með alþjóðlegar umhverfisvottanir. Í kjölfarið var verslun fyrir fagmenn og almenning opnuð í bakhúsi í Lágmúla 7. Vorið 2009 var glæsileg málningarvöruverslun svo opnuð í Síðumúla 22. Í miðjum Covid faraldri flutti fyrirtækið í risastórt húsnæði fyrir miðju höfuðborgarsvæðisins að Dalvegi 32b og rak báðar verslanir um hríð. Þegar Síðumúlinn og Ármúlinn breyttust í smáverslanagötur var orðið erfitt um vik með bílastæði og litlu versluninni því lokað – en í upphafi árs 2023 var ný og glæsileg verslun opnuð á heimaslóðum eigenda; Akureyri. Skemmtilegt er að segja frá því að hún er einmitt í gamla Sjafnarhúsinu (nú verslanamiðstöðin Norðurtorg) þar sem annar eigandinn vann sem efnaverkfræðingur í upphafi ferils síns. 

Í ársbyrjun 2007 hófu Sérefni samstarf við Arte Constructo um sölu á ítalskri kalkmálningu og marmaraspartli. Sama ár hófst innflutningur á vörum frá Keim Farben, sem er frumkvöðull og leiðandi í heiminum í sílikatefnum og sílikatmálningu til nota bæði innan- og utandyra. Kalkmálning og sílikatmálning flokkast sem steinefnamálning og er náttúruhráefni en hafa slík efni verið í notkun í margar aldir við málun á steinefni, þ.e.a.s á míneralísku undirlagi. Um vorið 2010 hófst samstarf við sænska trétjöruframleiðandann Auson um sölu á gamaldags trétjöru og kínaolíu á harðvið. Trétjara og kínaolía eru gerðar úr náttúrulegum hráefnum, unnar úr rótum og fræjum viðarins og hafa margra alda notkunarsögu. Í kjölfarið bættist sænska fjölskyldu- og hugsjónafyrirtækið Allbäck í vistvæna hópinn, en Allbäck framleiðir ekta línolíumálningu án allra leysiefna. Ári síðar víkkuðu Sérefni enn út vöruúrvalið með því að ganga til samstarfs við Orac Decor um sölu á fjölbreyttu úrvali af rósettum og gólf-, veggja- og loftalistum. Nýjasti stóri samstarfsaðilinn er Sikkens, sem bættist í hópinn árið 2014. Sikkens framleiðir hágæða olíu- og pólýúretanlökk og sérhæfð málningarefni fyrir steinsteypu og múrklæðningar. Þá má geta þess að í Sérefnum fæst nú eitt mesta úrval á landinu af verkfærum til málunar og ber þar helst að nefna vandaða pensla og rúllur frá þýska fyrirtækinu Friess. Snemma árs 2019 fór fyrirtækið að bjóða upp á veggfóður frá sjö framleiðendum frá ýmsum löndum. Í stað þess að stofna stóran lagers sem úreldist fljótt er allt veggfóður flutt inn með hraðsendingum eftir pöntunum, sem þýðir einungis um þriggja daga bið eftir vörunni og þúsundir mynstra að velja úr. Loks ber að geta innflutnings á einstaklega vönduðu steinefnaspartli (stucco) frá Stoopen & Meeus, náttúruefni í mismunandi grófleika og áferð fyrir veggi, gólf og votrými.

Sérefni hafa vaxið og dafnað jafnt og þétt og bjóða í dag upp á mjög breitt vöruúrval af málningarefnum, verkfærum og skrautefnum fyrir heimili. Frá upphafi hefur allt kapp verið lagt á góða þjónustu, faglega ráðgjöf og hágæðavörur sem skila árangri og endingu.

Shopping cart

0
image/svg+xml

No products in the cart.

Continue Shopping