Húsið við Nönnustíg á stutt í áttræðisafmælið. Þrátt fyrir það er húsið einstaklega glæsilegt eftir viðgerðir og málun í sumar. Eigendum tókst að fara skemmtilegan milliveg í upplyftingunni; gamla útlitið fær í megindráttum að halda sér með litlu hvítu gluggunum og gömlu bárunni en litir og litaskipting er nútímalegri. Í stað þess að fara í dökkan grunn á móti ljósari eða litríkari efri hluta völdu eigendur að halda sama lit á öllu húsinu. Þannig er eins og húsið virðist stílhreinna og standi hærra í lóðinni. Að vísu er aðeins tónamunur milli bárunnar og þaks, grunns og handriða. Það skapar falleg sjónræn áhrif þar sem hliðstæðir (líkir) litir gera húsið frísklegra og undirstrika áferðarmun.

Fyrir málun var húsið alls ekki slæmt – en kannski það sem við köllum “fjarskafallegt”. Kominn var tími á ýmislegt: Sprungur í múr, fúa í þakkanti, ryðgaðar þakrennur og auðvitað bráðvantaði málningu.






Sprunguviðgerðirnar urðu meiri en búist var við – en þetta er gamalt hús og því varla við öðru að búast. Heil 16 ár höfðu liðið frá því húsið var síðast tekið í gegn og bárujárnið hafði staðið ómálað frá 2008. Það er of langur tími og ryðblettir farnir að birtast víða.
Ákveðið var að vanda til verka og laga allt sem kallaði á viðgerðir. Þá var loksins kominn tími á að velja lit. Fyrir valinu varð liturinn efst á myndinni lengst til hægri; koksgrái S 7500-N. Þak og húsgrunnur fóru í svartan staðallit frá Nordsjö.



Feðgarnir í Lúxusmálun unnu verkið. Takið eftir sérlega vönduðum vinnubrögðum þar sem hugað er af nákvæmni að hverju smáatriði. Niðurstaðan er enda sláandi falleg. Í kjölfarið hefur gangandi umferð aukist töluvert á Nönnustíg og ljóst að fleiri í nágrenninu eru að huga að framkvæmdum. Húsið verður eflaust mörgum innblástur.
Fyrir þá sem hafa áhuga á nákvæmri verklýsingu eru hér helstu atriði:
- Húsið þvegið með 310 bara háþrýstidælu
- Gert við sprungur með múrblöndu
- Viðgerðir grunnaðar með Aquafix Opaque múrgrunni
- Gluggar skafnir með karbítsköfum, slípaðir og grunnolía borin á (Tinova Wood Base Oil)
- Þök og klæðning grunnuð með Intertuf 203 ryðvarnar- og viðloðunargrunni
- Ein umferð sett á glugga í litnum Modest White með One Super Tech
- Þök og þakkantar máluð í svörtum staðallit með One Super Tech
- Klæðning máluð í litnum S-7500 N með One Super Tech
- Steinn málaður í litnum S-7500 N með Murtex Acrylic
- Seinni umferð tekin á glugga
- Þakrennur og handrið máluð svört í One Super Tech





Já, fallegt er það. Næsta skref er pallurinn. Það verður ekki amalegt að hreinsa og bera á hann þarna í skjólinu við þetta fallega gamla hús.