Notið litaprufur
Við mælum alltaf með því að taka litaprufur áður en litur er valinn. Það er nefnilega ekki öruggur leikur að velja sama lit og virkar skotheldur heima hjá vinunum, hvað þá einhvern flottan lit af agnarsmárri litaprufu í stórri, vel upplýstri verslun. Það er svo margt sem getur haft áhrif á tóninn, sérstaklega ef hann er dempaður og í ljósari kantinum.
En það er ekkert endilega einfalt að velja litaprufur og mála með þeim. Oftast er nógu flókið að velja litatón og litastyrk og því yfirleitt vel þegið að fá ráð sem styttir leiðina að rétta litnum. Hér eru þrjú algengustu mistökin sem við sjáum í versluninni.
Mistök nr. 1
AÐ MÁLA BEINT Á VEGGINN
Litir breytast eftir birtu og því er ekki nóg að prófa lit á einum stað á vegg. Mun skynsamlegra er að mála með prufunni á stórt spjald eða pappa og skoða litinn á móti sólarljósi, við gluggann, niður við gólfefnið og ofan við sófann. Ekki gleyma að skoða litinn á mismunandi tímum dags því sólarljósið breytir öllum litum, líka á innbúinu. Alltaf mála 2 umferðir til að fá dýptina í litinn.
Mistök nr. 2
AÐ MÁLA Á OF LÍTINN FLÖT
Eftir því sem prufan er stærri, þeim mun léttara er að ímynda sér hvernig liturinn kemur út í rýminu. Fín prufustærð er t.d. 40 x 40 cm.
Litir eru alltaf meiri og dekkri á stærri fleti. Gott er að hafa það í huga þegar litaprufan er valin í versluninni, en mun algengara er að fólk endi í ljósari tónum en dekkri eftir að hafa tekið litaprufur.
Mistök nr. 3
MARGAR PRUFUR HLIÐ VIÐ HLIÐ
Þegar margar litlar prufur eru málaðar hver upp við aðra rugla þær mann í ríminu og flækja litavalið.
Litir hafa nefnilega áhrif hver á annan og draga fram undirtóna sem maður tæki ekki endilega eftir þegar liturinn er skoðaður einn og sér. Til að fá tilfinningu fyrir því hvaða litir falla að litapallettunni sem fyrir er á heimilinu er því best að skoða bara einn vegglit í einu.