Að mála flísar
Með vatnsþynnanlegri expoxýmálningu
Aðferð
- Byrja þarf að þrífa flísarnar með hreinsi- og affitunarefninu Målartvätt. Blandið Målartvätt með vatni í hlutfallinu 1:3. Berið blönduna á með svampi eða bursta. Látið blönduna liggja á fletinum í nokkrar mínútur og skrúbbið af með blautri tusku eða bursta og vatni.
- Áður málað, slétt og/eða þétt yfirborð er ráðlagt að slípa matt til að tryggja viðloðun. Mattið með sandpappír nr. 180-240 og fjarlægið síðan slípiryk. Gott er að nota límklúta í lokin þannig að allt ryk verði örugglega fjarlægt.
- Blandið Wapex 660 stofn og herði saman af kostgæfni. Við blöndun skal nota hæggenga borvél með þeytara, á u.þ.b. 200 rpm.
- Mikilvægt er að þynna efnið með vatni, helst ekki meira en 10% (meiri þynning fer að hafa áhrif á hulu).
- Málið tvær umferðir með Wapex 660 eða Wapex 660 Mat. Best er að hafa ekki of stórt svæði undir í einu heldur fulllakka nokkrar flísar í einu. Reynið að rúlla eða pensla þannig að skil myndist ekki með því láta rúlluna nema við fúgulínuna.
- Efnið nær fullum styrk og hörku á nokkrum dögum. Forðist því að leggja mikið álag á flötinn fyrir þann tíma.
Athugið að notkunartími við 20°C er um 90 mínútur (Wapex 660) og um 60 mínútur (Wapex 660 Mat) eftir samblöndun stofns og herðis (þættir A og B). Við 30°C lækkar notkunartími í um 45/30 mínútur. Eftir þennan tíma er varan ekki lengur nothæf. Merki um að svo sé má sjá á aukinni seigju og að efnið byrji að skilja sig.
ATH. Varist alla snertingu efnisins við húð.
*Nákvæmari upplýsingar um efnin má finna í tækniblöðum.
Heilsufars- og umhverfismál
Við pússun eða þegar málning er fjarlægð með hita geta myndast agnir og gufur sem eru skaðlegar heilsunni. Ávallt skal mála í vel loftræstu rými og nota grímur fyrir öndunarfæri ef loftræsting er ónóg. Sjá einnig upplýsingar á öryggisblaði. Ekki láta málningardósina standa opna meðan á verki stendur. Þrífið verkfæri strax eftir notkun. Hellið ekki málningar- og hreinsiefnaleifum í niðurföll. Skilið efnaleifum og tómum umbúðum til endurvinnslustöðva.
Tæknilegar upplýsingar
Til notkunar: Innanhúss
Gljástig: Satíngljái eða matt
Þurrktími við 20°C/65% raka: Má ganga á eftir 8 klst
Yfirmálun: Eftir 16-72 klst. Flötur nær fullum slitstyrk eftir minnst 7 daga
Þynning: Vatn; fyrsta umferð 10%, næstu umferðir mest 3%
Verkfæri: Penslar, rúllur
Blöndunarhlutfall: Þáttur A (stofn) 80% af rúmmáli. Þáttur B (herðir) 20% af rúmmáli
Þekja: 10 m2/l í umferð. Málningarmagn og þekja fer töluvert eftir undirlagi