fbpx

Að kalkmála húsgögn

Að kalkmála húsgögn

Undirbúningur

Byrjið á að þrífa fitu og önnur óhreinindi af viðnum með Målartvätt. Gljáandi fleti skal matta. Varast skal að pússa viðinn of mikið og „opna“ hann þannig því þá getur kalkið dregið fram litinn og trjákvoðuna (harpixið) í viðnum.

Grunnað

  • Ómeðhöndlaðan við þarf að loka með einangrunargrunni en ekki er þörf á því ef viðurinn hefur þegar filmu á sér.
  • Ætíð áður en flötur er málaður með kalkmálningu þarf að grunnmála með kalkgrunni. Þetta er gert til að tryggja viðloðun kalksins og auðvelda málun. Kalkgrunnurinn er borinn á með pensli eða rúllu og má draga vel úr honum.

Kalkmálað
Kalkmálningin er borin á með pensli. Málið upp og niður eða langsum í stuttum eða löngum strokum. Einnig má krossa flötinn á handahófs­kenndan hátt; allt eftir því hvaða áferð verið er að sækjast eftir. Þrýstingur á pensilinn skiptir máli því ólík áferð fæst með léttum strokum eða þéttum. Þynna má kalkmálningu til að léttara sé að bera hana á. Dökk kalkmálning er yfirleitt svolítið þykkari en ljós vegna hærra hlutfalls litarefna.

Áferð
Til þess að ná fram veðruðu útliti er hægt að pússa álags- og endafleti (s.s. horn og bríkur) með sandpappír í grófleika 100-150 eftir að kalkið er þornað. Einnig er hægt að nudda fletina með blautum svampi þegar kalkið er rétt við að þorna. Mögulegt er að velja tvo mismunandi liti í hvorri umferð til að láta fyrri litinn skína í gegn við pússun.

Lakkað yfir
Þegar lokaútliti hefur verið náð má verja húsgagnið með lakki. Kalkmáluð svæði sem eru sérstaklega útsett fyrir sliti, nuddi og vatnsslettum má loka með matta plastefninu 1KPU. Flöturinn heldur ágætlega lit og dýpt við það. Gott er að prófa sig aðeins áfram á lítt áberandi svæði áður en ráðist er í allt verkið. Nokkur ráð um lökkun:

  • Kalkmálning þarf að hafa þornað í 5-7 daga áður en lakkað er yfir
  • Penslið lakkinu í sömu átt og kalkið var sett á til að koma í veg fyrir færsluskil
  • Berið efnið jafnt á flötinn og takið ekki hlé fyrr en að loknu verki

Málað yfir kalkmálningu

Það er lítið mál að breyta yfir í plastmálningu seinna meir. Ef kalkmálningin er grófmáluð eða laus í sér skal pússa þá fleti með sandpappír nr. 220 og grunna síðan yfir með Professional Microdispers bindigrunni frá Nordsjö. Það er mjög fljótlegt. Þá er flöturinn tilbúinn undir „venjulega“ innimálningu. Hið sama gildir ef yfirborðið er vaxvarið – en þá þarf grófari sandpappír, t.d. nr. 80-100.

Að fjarlægja bletti

Ef heit fita slettist á kalkmálningu geta myndast dökkir blettir. Ef hún er ekki þrifin strax af er best að skrapa blettinn varlega upp með hníf eða pússa yfir með sandpappír. Blettið síðan með kalkgrunni áður kalkmálning er borin á blettinn með mjög fínum pensli. Þegar málningin er þornuð er gott að fara laust yfir blettinn og svæðið í kring með þurri eða örlítið rakri tusku þannig að skil máist. Sömu aðferð má nota ef höggfar hefur myndast.

*Nákvæmari upplýsingar um efnin má finna í tækniblöðum.

Tæknilegar upplýsingar

Til notkunar: Innanhúss

Gljástig: Matt

Þynning: Vatn; fer eftir litum. Ljósir litir eru lítið eða ekkert þynntir, dökkir 10-50%

Verkfæri: Fremur grófur og breiður pensill

Þurrktími: Kalkgrunnur 2 klst, kalkmálning 2 klst

Yfirmálun: Kalkgrunnur 4 klst, kalkmálning 12 klst

Þekja: Kalkgrunnur 12-14 m2/l; kalkmálning 6-8 m2/l

Hreinsun: Vatn

Fleiri blogg

Nýmálað á Nönnustíg

Húsið við Nönnustíg á stutt í áttræðisafmælið. Þrátt fyrir það er húsið einstaklega glæsilegt eftir viðgerðir og málun í sumar.

Karfa

0
image/svg+xml

No products in the cart.

Continue Shopping