fbpx

Að hreinsa og olíubera palla og skjólveggi

Að hreinsa og olíubera palla og skjólveggi

úr gagnvörðum viði

Aðferð

  1. Við almennt viðhald fyrir palla og skjólveggi í góðu ástandi nægir að þvo fleti með þörunga- og mygluhreinsi (þynntum í vatni í samræmi við upplýsingar á brúsa) áður en olíuborið er.
  1. Ef grámi er kominn í viðinn þarf að fjarlægja hann með Nordsjö Tinova Wood Cleaner pallahreinsi og vatni. Hið sama gildir um nýja palla sem hafa staðið einhverja mánuði frá byggingu (hafa „brotið“ sig). Bleytið flötinn vel með vatni, berið pallahreinsinn á viðinn með pensli, kústi eða rúllu. Notið hanska og hlífðargleraugu. Oftast er efnið notað óþynnt en það má þynna með vatni í hlutföllunum 1:1 eða meira, allt eftir magni og gerð óhreininda og gráma í viðnum. Látið efnið liggja á í 20-30 mínútur eftir ástandi viðar. Í sumum tilfellum gæti þurft að nota meiri hreinsi, skrúbba honum ofan í viðinn og bíða í allt að 60 mínútur (athugið að virknin í efninu hættir ef flöturinn þornar – úðið yfir með vatni ef þurfa þykir). Beitið léttum háþrýstiþvotti með hobbý-dælu eða skrúbbið flötinn vandlega með kústi 2-3 metra í einu. Skolið flötinn vel með vatni uns allt hreinsiefnið hefur verið fjarlægt. Ef óhreinindin hafa ekki horfið að fullu má endurtaka þvottinn.
  1. Látið yfirborðið þorna vel í um 3-5 daga eftir aðstæðum eða uns rakastig viðarins er undir 16%, notið rakamæli. Slípið nýjan við eftir þornun, t.d. með sandpappír nr. 80, sérstaklega lárétta fleti. Gott er að nota þar til gerð slípibretti á skafti.
  1. Hrærið vel upp í dósinni af viðarolíunni (Tinova Traditional Allround Oil frá Nordsjö) og berið hana jafnt á viðinn, t.d. með pensli eða moppu. Bera þarf vel á mjög gljúpa fleti þar til þeir mettast. Ætíð skal bera á viðinn endilangt og forðast að búa til færsluskil (aukalitstyrk) á miðju borði. Þetta á bæði við um nýmálun og endurmálun. Látið olíuna liggja á viðnum í um 3-5 mínútur.
  1. Þurrkið síðan burt umframolíu svo ekki myndist filma á viðnum. Það er best gert með því að draga þurran pensilinn yfir flötinn og verður áferðin þá jöfn og falleg.
  1. Endurtakið sömu aðgerð daginn eftir. Viðhaldið fletinum með 1 umferð á 1-3 ára fresti, á allan pallinn eða þar sem álag er mikið. Þannig heldur viðurinn sinni upprunalegu áferð sem lengst. Þegar litstyrkurinn er orðinn nægilegur skal velja minni litstyrk eða jafnvel glæra olíu næst þegar borið er á.

Athugið að vegna mikils raka getur verið varasamt að bera á viðinn of snemma á vorin eða seint á haustin. Ekki bera á mjög snemma dags eða seint að degi.

*Nákvæmari upplýsingar um efnin má finna í tækniblöðum

Heilsufars- og umhverfismál

Ekki láta málningar­dósina standa opna meðan á verki stendur. Þrífið verkfæri strax eftir notkun. Athugið að kviknað getur í olíublautum tuskum og tvisti af sjálfu sér og verður að bleyta þær með vatni áður en þeim er hent á öruggan stað. Hellið ekki málningar- og hreinsiefnaleifum í niðurföll. Skilið efnaleifum og tómum umbúðum til endurvinnslustöðva.

Tæknilegar upplýsingar

VIÐARHREINSIR: Tinova Wood Cleaner

Tegund: Alkalískur viðarhreinsir

Þynning: Notið helst óþynnt

Verkfæri: Penslar, kústar, rúllur

Efnisnotkun: Um 5-6 m2/l. Fer mikið eftir viðartegund og ástandi viðarins

Athugið: Tinova Wood Cleaner ætir gler, ál og aðra fleti sem eru viðkvæmir fyrir alkalí

VIÐAROLÍA: Tinova Traditional Allround Oil

Tegund: Alkýðolía

Þurrefni: 40%

Þurrktími: Við 23°C/50% raka, 8 klst

Yfirmálun: 16 klst

Hiti við málun: +5°C-25°C

Þynning: Hreinsuð terpentína

Verkfæri: Penslar, kústar, rúllur

Efnisnotkun: Allt að 8-10 m2/l. Fer eftir vinnsluaðferð, tegund og ástandi viðarins

Tengdar vörur

Fleiri blogg

Nýmálað á Nönnustíg

Húsið við Nönnustíg á stutt í áttræðisafmælið. Þrátt fyrir það er húsið einstaklega glæsilegt eftir viðgerðir og málun í sumar.

Karfa

0
image/svg+xml

No products in the cart.

Continue Shopping