Að bera tekkolíu á húsgögn
Efni
International Teak Oil eða tekkolía er sérstaklega ætluð fyrir tekk-við og hentar bæði innan- og utandyra. Tekkolían smýgur vel inn í viðinn og ver hann, hvort sem um er að ræða innihúsgögn, garðhúsgögn, palla og skjólveggi eða þilför úr tekki. Hún styrkir og ver yfirborðið og auðveldar þrif á viðnum. Tekkolían byggir á hefðbundinni skandínavískri formúlu úr lín- og tungolíu, þ.e. bestu harðviðarvörn sem völ er á. Hún inniheldur jafnframt ryðvörn fyrir yfirborð úr málmi.
Meðhöndlun
- Ef viðurinn er illa farinn, orðinn grár eða með föstum óhreinindum, skal nota hreinsinn Teak Restorer. Hreinsiefnið hreinsar upp gamlar olíur og óhreinindi en hjálpar viðnum einnig að ná upprunalega viðarlitnum án þess að skemma hann. Bleytið viðinn með vatni og berið hreinsinn á með pensli eða tusku. Látið standa á viðnum í 10-15 mínútur og skrúbbið með húsgagnastálull ef þess þarf. Þvoið viðinn með hreinu vatni í lokin. Endurtakið þessa aðgerð eftir þörfum. Við þvottinn getur viðurinn ýfst upp. Ef það gerist skal strjúka yfir flötinn með sandpappír nr. 220.
- Til þess að best til takist þarf viðurinn að vera hreinn og þurr. Berið 2-4 þunnar umferðir á flötinn af Teak Oil með pensli eða tusku og þurrkið umframolíu af eftir 10 mínútur. Snertið ekki viðinn fyrr en olían er orðin þurr.
Athugið: Kviknað getur í olíublautum tuskum og tvisti af sjálfu sér og verður að bleyta í þeim með vatni áður en þeim er hent á öruggan stað.
*Nákvæmari upplýsingar um efnin má finna í tækniblöðum.
Heilsufars- og umhverfismál
Við pússun eða þegar málning er fjarlægð með hita geta myndast agnir og gufur sem eru skaðlegar heilsunni. Ávallt skal mála í vel loftræstu rými og nota grímur fyrir öndunarfæri ef loftræsting er ónóg. Sjá einnig upplýsingar á öryggisblaði. Ekki láta málningardósina standa opna meðan á verki stendur. Þrífið verkfæri strax eftir notkun. Hellið ekki málningar- og hreinsiefnaleifum í niðurföll. Skilið efnaleifum og tómum umbúðum til endurvinnslustöðva.
Tæknilegar upplýsingar
Til notkunar: Innan- og utanhúss
Gljástig: Matt
Litur: Glær
Þynning: Þynnið ekki
Verkfæri: Tuska og pensill
Þurrktími: 16-24 klst, fer eftir hita og rakastigi
Yfirmálun: 8 klst
Þekja: 4-10 m2/l (fer eftir þurrk í við)
Hreinsun: Penslasápa