Get ég málað þegar ég er barnshafandi?
Þegar von er á barni eða barn er nýkomið í heiminn fara margir foreldrar í hreiðurgerð og vilja gera fínt í barnaherberginu. Þá vakna upp spurningar um málningu og hvort óhætt sé fyrir barnshafandi konur og ungbörn að vera nálægt opnum málningardósum eða hvort best sé að víkja af heimilinu á meðan málað er. Rannsóknir sýna að svo fremi sem málningin er vatnsleysanleg og með lágu VOC-gildi – lítið af rokgjörnum lífrænum leysiefnum – er þeim að skaðlausu að mála eða dvelja í nýmáluðum rýmum. Þó er eindregið mælt með að opna glugga og láta herbergi standa opin til að tryggja loftræstingu á meðan málningin þornar.
Ef málning inniheldur lífræn rokgjörn leysiefni (sem eru lyktarmikil) ættu barnshafandi konur að láta öðrum um að mála og halda sig í burtu á meðan málningin þornar og lyktin er alveg horfin. Athugið að slík efni eru oftar í lökkum og spreymálningu en í hefðbundinni veggmálningu. Ófrískar konur og börn ættu einnig að forðast að vera í kringum notkun á terpentínu og rauðspritti.
Hvenær er barninu óhætt að fara í nýmálaða herbergið sitt?
Loftið vel og bíðið þar til málningin er að fullu þurr og engin lykt lengur í loftinu. Þornunartíminn er gefinn upp á dósinni. Við mælum ekki með að láta börnin taka þátt í að mála.
Hvenær má þrífa nýmálaðan vegg?
Það er eitthvað mismunandi eftir málningartegundum en sólarhringur er lágmark. Ráðlegt er að nota kalt/volgt vatn í trefjatusku og nudda ekki fast. Það ætti að duga á flest óhreinindi á veggjum sem málaðir eru með góðri innimálningu.
Hvað á að gera ef barnið innbyrðir málningu?
Ef barnið drekkur vatnsleysanlega málningu á að gefa því eitthvað að drekka, gjarnan mjólk. Það þynnir efnin út sem barnið hefur gleypt. Lítið magn af vatnsþynnanlegri málningu er yfirleitt ekki skaðlegt. Ef barnið hefur hins vegar neytt málningarefnis sem byggir á lífrænum leysiefnum skal tafarlaust hringja í 112 eða leita strax til læknis.
Hvernig veit ég hvort málning innihaldi efni sem geta verið skaðleg fyrir börn?
Skoðið dósatextann eða tækniblaðið og leitið eftir umhverfisvottun og VOC-innihaldi til að tryggja sem skaðlausustu vöruna. Þekktar vottanir á borð við Svaninn eða Evrópublómið tryggja lægstu gildi af VOC og ertandi eða ofnæmisvaldandi efnum. Athugið samt að margar óvottaðar vörur geta staðist hæstu umhverfiskröfur en vottanir kosta framleiðslufyrirtæki háar upphæðir og eru því ekki keyptar fyrir öll efni sem uppfylla vottunarstaðla. Tækni- og öryggisblöð gefa góðar upplýsingar um vöruna ef vottun er ekki fyrir hendi. Best er auðvitað að koma og ræða við sérfræðinga í versluninni um val á efnum og fá þá í leiðinni ráðgjöf um þau efni sem uppfylla háar gæðakröfur um þvottheldni, fituþol og rispuvörn. Börn verða að fá að vera börn og í Sérefnum fást mörg frábær efni sem þola það álag sem fylgir kraftmiklum krökkum. Gott dæmi er Easy2Clean og P6 frá Nordsjö, bæði svansmerkt efni, með fallegri áferð og níðsterk.