Hvaða stíl myndir þú velja fyrir þinn draumabústað ef þú hefðir kost á því að hanna hann frá grunni?
Yrði það nútímalegt steinhús á einni hæð? Gamaldags timburhús með svefnlofti? Sléttir, málaðir gifsveggir eða ómálaðar viðarþiljur?
Óskar og María ákváðu að byggja sér “gamaldags” sumarhús með risi. Hann fellur vel að náttúrunni, er eitthvað undir 100 fermetrum (sem telst víst ekki stórt í dag) og er alveg óskaplega notalegur. Innbúið er valið af fádæma smekklegheitum, gamalt í bland við nýtt.
Elstu timburhús á Íslandi voru flest tjörguð en viðartjara er einmitt unnin úr leifum gamals timburs og verndar því viðinn gegn fúa á náttúrulegan hátt. Þess vegna er það alls ekki dyntótt tískuákvörðun að mála timburhús svört heldur vísar til sögu húsagerðar fyrri alda. Eigendur notuðu reyndar ekki tjöru (nema undir húsið til varnar músagangi) heldur viðarvörnina ONE SuperTech frá Nordsjö, sem hefur gríðarlega endingu. ONE hefur smá gljáa og líkist því áferð gömlu tjörunnar. Við byggingu hússins var að mestu farið eftir stöðlum Minjaverndar um gömul hús á Íslandi, sem sést í mörgum smáatriðum þegar vel er að gáð. Þannig verður til dæmis sett gras á þökin.
Takið eftir hringlaga pottinum; hann minnir einnig á gamla tíð fyrir tíma hitaveitna, á þvottapotta eða aðstöðu við laugar sem sótt var í til fataþvotta. Heiti potturinn verður málaður svartur eins og húsið og fær um sig járngjörð að hætti gamalla tunna og þvottapotta.
Stofan er er stílhrein, með mikilli lofthæð en fyrst og fremst notaleg. Litavalið er einkar hlýlegt í öllu húsinu. Á veggjum er jarðbrúni tónninn Via Babuino (úr litapallettu Rutar Kára og Sérefna) á móti koksgráum og svörtum (S 8000-N og S 9000-N) og arkitektahvítum í gluggum.
Takið eftir nosturslegum smáatriðum, t.d. plöttunum sem Óskar smíðaði undir ljósin, þverbitunum og gluggunum. Vegleg dýpt glugganna er fremur í stíl við hönnun aldargamalla húsa en nýbyggðra.
Borðstofusvæðið er myndarlegt og í hjarta hússins. Dásamleg pósthússrauð hurð gefur bústaðnum virðulegan karakter. Hér sést líka hvar stiginn fer upp í risherbergið og hjálpar til að aðgreina eldhúsið svolítið frá alrýminu. Það gera reyndar lofthæðarmunur og gólfefnin líka.
Eldhúsið er kapítuli út af fyrir sig. Allt er úthugsað fyrir vinnandi fólk og það besta er birtan og útsýnið. En hvar er ísskápurinn? Horfið vel… Nú, auðvitað undir (inni í) stiganum. Frábær lausn.
Nýtt og gamalt í bland. Þessi aldni sveitasími er auðvitað algjör gersemi!
Við erum svo hrifin af franska sveitastílnum sem er hvað augljósastur í baðherberginu. Takið t.d. eftir ljósinu ofan við spegilinn, tvískiptu salerninu og blöndunartækjunum.
Hér sést vel íðilsnjöll lausn sem Óskar upphugsaði fyrir baðskáp frá Ikea, svo hann félli fullkomlega að franska stílnum. Þetta er auðvitað svokallað “Ikea hack”. Það er erfitt að sjá að hér sé um sömu mublu að ræða. Hann límdi lista á skúffur og fætur, skipti um höldur og lakkaði skápinn loks í dásamlegum kóngabláum lit; Intense Dijon. Lakkið er bæði fallegt og auðvelt í notkun – yfirburðaefnið Superfinish frá Nordsjö.
Að öllu ólöstuðu í þessu fagra húsi er það óvenjulegur glugginn í risherberginu sem grípur augað helst. Oddbogaformið, einkennandi fyrir gotneskan stíl, minnir á gamlar kirkjur fyrri alda, tryggð og trúfestu. Hann veitir jafnframt birtu og útsýni niður í stofuna. Verndari hússins, sjálf guðsmóðirin, stendur í glugganum miðjum með útbreiddan faðminn.
Uppruni gluggans er áhugaverður; hann er ævaforn og kemur úr Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Honum átti að henda þegar nýr gluggi var smíðaður fyrir kirkjuna. Óskar greip tækifærið og gerði gluggann upp af mikilli natni.
Svefnherbergin eru máluð í tveimur litum; alrýmisliturinn Via Babuino er á loftin en veggir eru hafðir aðeins dekkri og gylltari. Sá litur heitir Via Condotti. Báðir koma þeir úr hönnunarlínunni Roma í samvinnu Rutar Kára og Sérefna.
Einfalt er oft best. Stólarnir með fléttuðum rattan-setum eru hagnýtir og gefa rýmunum hlýleika. Gamaldags viðargólf, dökkir gólflistar og málaðar þiljur tala fallega saman. Gluggarnir eru málaðir hvítir svo þeir endurkasti birtunni inn í rýmin.
Á síðustu myndinni sjáum við vel heppnaðan ganginn þar sem fullkomið jafnvægi ríkir í litum og formum. Meira að segja þar ber hönnunin vott um eigendur sem kunna að blanda saman þekkingu og virðingu fyrir gömlu og nýju í húsagerðarlist.
Þó þessu sameiginlega verki hjónanna að reisa sér hús í sveitinni sé ekki fyllilega lokið má segja að það skipti kannski ekki öllu máli. Íslenska birtan og víðáttan sem umlykur húsið við Apavatn gerir það að fullkomnum griðastað.
Hægt er að skoða fleiri myndir á Facebook og Instagram síðum hússins:
Hjónin leigja húsið út ef vill.