Um SérEfni

Serefni_verslunSérEfni ehf. var stofnað í apríl 2006 og tók þá yfir sölu og ráðgjöf á International skipa-, smábáta-, eldvarnar- og iðnaðarmálningu frá Hörpu Sjöfn. International er stærsti framleiðandi heims í skipa- og iðnaðarmálningu og leiðandi í þróun í þeim geira. Fljótlega keypti SérEfni umboðið á Nordsjö málningu, sem landsmenn þekkja vel enda hefur vörumerkið verið á íslenskum markaði í meira en hálfa öld. Nordsjö húsa-málningin skiptist í inni- og útimálningu, viðarvörn, spörtl og lökk og er stór hluti efnanna með alþjóðlegar umhverfisvottanir. Í kjölfarið var verslun fyrir fagmenn og almenning opnuð í bakhúsi í Lágmúla 7. Vorið 2009 var glæsileg málningarvöruverslun svo opnuð í Síðumúla 22.

Í ársbyrjun 2007 hóf SérEfni samstarf við Arte Constructo um sölu á ítalskri kalkmálningu og marmaraspartli. Sama ár hófst innflutningur á vörum frá Keim Farben, sem er frumkvöðull og leiðandi í heiminum í sílikatefnum og sílikatmálningu til nota bæði innan- og utandyra. Kalkmálning og sílikatmálning flokkast sem steinefnamálning og er náttúruhráefni og hafa slík efni verið í notkun í margar aldir við málun á steinefni, þ.e.a.s á míneralísku undirlagi. Um vorið 2010 hófst samstarf við sænska trétjöruframleiðandann Auson um sölu á gamaldags trétjöru og kínaolíu á harðvið. Trétjara og kínaolía eru gerðar úr náttúrulegum hráefnum, unnar úr rótum og fræjum viðarins og hafa margra alda notkunarsögu. Í kjölfarið bættist sænska fjölskyldu- og hugsjónafyrirtækið Allbäck í vistvæna hópinn, en Allbäck framleiðir ekta línolíumálningu án allra leysiefna. Ári síðar víkkaði SérEfni út vöruúrvalið með því að ganga til samstarfs við Orac Decor um sölu á fjölbreyttu úrvali af rósettum og gólf-, veggja- og loftalistum. Nýjasti samstarfsaðilinn er Sikkens, sem bættist í hópinn árið 2014. Sikkens framleiðir hágæða olíu- og pólýúretanlökk og sérhæfð málningarefni fyrir steinsteypu og múrklæðningar. Loks má geta þess að í SérEfni fæst nú eitt mesta úrval á landinu af verkfærum til málunar og ber þar helst að nefna einstaklega vandaða pensla og rúllur frá þýska fyrirtækinu Friess. SérEfni hefur einkaumboð á vörum Friess á Íslandi.

SérEfni hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt og býður í dag upp á mjög breitt vöruúrval af málningarefnum, skrautefnum og verkfærum. Frá upphafi hefur allt kapp verið lagt á góða þjónustu, faglega ráðgjöf og hágæðavörur sem skila árangri og endingu.